Gátama Búddha

Gátama Búddha, hinn „miskunnsami“, gegnir embætti Drottins heimsins (vísað til sem „Guðs jarðar“ í Opinberunarbókinni 11:4 ), yfirstjórnandi ljósvakaathvarfsins í Shamballa (uppi yfir Gobí eyðimörkinni), þar sem hann heldur uppi þrígreindum loga lífsins í jarðarþróuninni. Gátama (sem endurfæddist sem Siddhartha Gátama um 563 f.Kr.), er hinn mikli kennari uppljómunarinnar sem fæst þegar sálin fullnumar sig í tíu gjörningum, hinum fjóru göfugu sannindum og áttfalda veginum. Gátama er ennfremur bakhjarl Summit háskólans og köllunar guðsmóður logans, kyndilbera upplýsingar hins nýja tíma.
Gátama kom á þeim tíma þegar hindúasiður var í sínum dýpsta öldudal hnignunarinnar. Prestastéttin tók þátt í forréttindahyggju og lá á leyndardómunum, raunverulegum leyndardómum Guðs, gegn fólkinu og hélt þannig fjöldanum í fáfræði. Kast-kerfið var orðið leið til að ánetja sálina í stað þess að frelsa í gegnum dharma. Fæddur sem Siddhartha prins, yfirgaf hann höll, völd, eiginkonu og son til að öðlast þá uppljómun sem hann gæti gefið fólkinu aftur það sem afæturnar höfðu tekið frá þeim.
Fyrri líf
Gátama Búddha, fæddist sem Siddhartha Gátama í norðurhluta Indlands. Hann var sonur Suddhodana konungs og Mahamaya drottningar, höfðingja Sakya konungsríkisins, og þar með fæddur inn í kast-stétt Kshatriya (stétt stríðs- og stjórnarmanna).
Fornir palí-textar og búddhísk rit greina frá því að fyrir fæðingu hans dreymdi móður hans, Mahamaya, að fallegur silfurhvítur fíll færi inn í móðurkvið hennar í gegnum síðu hennar. Brahmínar, kallaðir til að túlka drauminn, spáðu fæðingu sonar sem myndi verða annaðhvort einvaldskonungur víðfeðms ríkis eða búddha.
Á síðustu dögum meðgöngunnar hóf drottningin ferð til Devadaha til að heimsækja foreldra sína eins og tíðkaðist á Indlandi. Á leiðinni kom hún við með þjónum sínum í Lumbini-garðinum og náði í blómstrandi grein af saltré. Þar, undir blómstrandi trénu, fæddist Búddha á fullu tungli maímánaðar.
Á fimmta degi eftir fæðingu var 108 brahmín-prestum boðið til nafngjafar í höllinni. Konungur kallaði átta af þeim fróðustu til að „lesa“ örlög barnsins með því að túlka líkamseinkenni þess og líkamlega eiginleika.
Sjö samþykktu að ef hann héldi heimafyrir, yrði hann allsherjarkonungur og sameinaði Indland; en ef hann færi, myndi hann verða búddha og fjarlægja hulu fáfræðinnar af heiminum. Kondañña, áttundi og yngsti í hópnum, lýsti því yfir að hann myndi örugglega verða búddha og afneita heiminum eftir að hafa séð fjögur ummerki — gamlan mann, sjúkan, látinn og heilagan.
Barnið var nefnt Siddhartha, eða „sá sem hefur uppfyllt markmið sitt. Sjö dögum eftir fæðingu hans lést móðir hans og var hann alinn upp hjá systur sinni Mahaprajapati, sem síðar varð ein af fyrstu kvenkyns lærisveinkum hans.
Konungurinn, sem hafði áhyggjur af spám brahmínsprestsins og horfunum á að missa erfingja sinn, gerði allar varúðarráðstafanir til að vernda son sinn gegn sársauka og þjáningu, umkringdi hann öllum hugsanlegum munaði, þar á meðal lét honum í té þrjár hallir og fjörutíu þúsund dansstúlkur.
Í Anguttara Nikāya (kanónískum texta) lýsir Gátama uppeldi sínu með eigin orðum:
Ég fékk ljúfa umönnun, ... afskaplega svo, óendanlega svo. Í höll föður míns voru byggðar lótuslaugar fyrir mig, á einum stað fyrir blá lótusblóm, á einum stað fyrir hvít lótusblóm og á einum stað fyrir rauð lótusblóm, blómstrandi fyrir mig. ... Nótt sem nýtan dag var hvítri regnhlíf höfð yfir mér, svo að kuldi, hiti, ryk, hismi eða dögg truflaði mig ekki. Ég bjó í þremur höllum, ... í einni, meðan kuldinn stóð yfir; í einni, á sumrin; og í einni, á regntímanum. Meðan ég var í regntímahöllinni, umkringdur tónlistarmönnum, söngvurum og kvenkyns dönsurum, fór ég ekki úr höllinni í fjóra mánuði. ...[1]
Sextán ára gamall, eftir að hafa sannað færni sína í vopnakeppni, kvæntist Siddhartha prins fallegri frænku sinni Yasodhara. Hann varð fljótlega hugsi og annars hugar, en tímamót lífs hans runnu ekki upp fyrr en á tuttugu og níu ára aldri, þegar hann lagði af stað í fjórar ferðir þar sem fjórir atburðir urðu á vegi hans.
Fyrst rakst hann á mjög gamlan mann, gráan og ellihruman, sem hallaði sér á staf; í öðru lagi aumkunarverðan sjúkling sem lá á götunni; þriðja, lík; og í fjórða lagi gulklæddan munk með rakað höfuð og betliskál. Hann varð mjög snortinn og samúðarfullur af fyrstu þremur sýnunum og áttaði sig á því að lífið var undirorpið elli, sjúkdómum og dauða. Fjórða sýnin sýndi honum kostinn á því að sigrast á þessum aðstæðum og hvatti hann til að yfirgefa heiminn sem hann þekkti til að finna lausn á þjáningunni.

Meinlætastefna
Á leið sinni aftur til hallarinnar fékk hann fréttir af fæðingu sonar síns, sem hann nefndi Rahula, eða „hindrun“. Um kvöldið skipaði hann vagnstjóranum sínum að söðla uppáhaldshestinn sinn, Kanthaka. Áður en hann yfirgaf borgina fór hann í svefnherbergið til að kveðja sofandi konu sína og son. Hann reið síðan alla nóttina og í dögun tók hann á sig gervi meinlætamanns og skipti um föt við vagnstjóra sinn, sem hann sendi aftur til hallar föður síns.
Þannig hóf Gátama líf förumunks. Samstundis fór hann í leit að lærðustu kennurum sem voru uppi til að leiðbeina honum í sannleika og náði fljótt tökum á öllu sem þeir kenndu. Óánægður og eirðarlaus ákvað hann að finna varanlegan sannleika, ósnortinn af blekkingum heimsins.
Þegar hann ferðaðist um Magadha-landið var tekið eftir honum myndarlegu yfirbragði hans og göfugum mhyndugleika. Hann kom til þorps sem heitir Senanigama, nálægt Uruvela, þar sem hann bættist við hóp fimm meinlætamanna, þeirra á meðal var Kondañña, Brahmin-presturinn sem hafði spáð fyrir um búddha-fyllingu hans.
Hér, í næstum sex ár, stundaði Gátama ströng meinlæti, sem eru skráðar með hans eigin orðum í Majjhima Nikāya:
Vegna næringarskorts urðu allir útlimir mínir eins og visnaðar renglur með hnýttum liðum; ... augasteinarnir í augum mínum virtust sokknir djúpt í tóftum sínum eins og vatn virðist skína í botni djúps brunns; ... húðin á kviðnum mínum fór að klofna við hrygginn á mér.[2]
Sem afleiðing af þessum alvarlegu líkamsmisþyrmingum varð Gátama svo veikburða að hann féll einu sinni í yfirlið og var talinn af. Sumar frásagnir lýsa því hvernig smaladrengur fann hann fallinn sem endurreisti hann með volgum mjólkurdreitli. Aðrir segja að það hafi verið tívarnir, eða guðirnir, sem endurlífguðu hann. Gátama gerði sér grein fyrir tilgangsleysi meinlætastefnunnar og lagði niður sjálfsafneitun sína og fór að leita eigin leiðar til uppljómunar — þar sem fimm félagar hans höfnuðu honum og yfirgáfu hann.
Bódhi-tréð

Dag einn gaf Sujata, dóttir þorpsbúa, honum staðgóða hrísgrjónamjólk — „máltíð svo dásamleg ... að drottinn okkar fann að krafturinn og lífið sneri aftur eins og næturvökurnar og að dagar föstunnar væru liðnir í draumi."[3] Og svo lagði hann einn af stað til Bó-trésins (skammstöfun fyrir bódhi, eða uppljómun) á stað sem nú heitir Buddh Gaya, eða Bódh Gaya, þar sem hann hét því að vera þar til hann fengi fulla uppljómun. Þess vegna hefur staðurin orðið þekkt sem óhreyfanlegur blettur.
Á þeirri örlagastund reyndi Mara, hinn illi, að koma í veg fyrir uppljómun hans og stóð frammi fyrir freistingum á svipaðan hátt og Satan prófaði Jesú á föstu sinni í eyðimörkinni.
Í Dhammapada eru skráð orð Mara, þegar hún gerði aðsúg að Gátama: „Þú horaði, þjáði, illa þokkaði maður, njóttu lífsins! Dauðinn er á næsta leiti. Dauðinn hefur þúsund hendur, þú hefur aðeins tvær. Lifðu! Lifðu og gjörðu gott, lifðu helgu lífi og njóttu umbunarinnar. Af hverju ertu að rembast? Streðið er erfið, erfitt að eiga í sífelldri baráttu."
Óhreyfður sat hann undir Bo-trénu á meðan Mara hélt áfram aðför sinni — fyrst kveikti hún löngun hjá honum, með skrúðsýningu eggjandi gyðja og dansstúlkna, síðan í gervi dauðans, réðst á hann með fellibyljum, úrhellisrigningu, logandi steinum, sjóðandi leðju, grimmum hermönnum og skepnum — og hellti loks myrkri yfir hann. Samt sat Gátama áfram ósnortinn.
Sem síðasta úrræði dró freistarinn brigður á rétt hans til að vera að gera það sem hann var að gera. Siddhartha sló þá á jörðina,[4]og jörðin gaf henni þrumandi svar: „Ég ber þér vitni!“ Allar hersveitir Drottins og náttúruvættir brugðust við og lofuðu rétt hans til að sækjast eftir uppljómun Búddha — og við svo búið flúði Mara.
Eftir að hafa sigrað Mara varði Gátama það sem eftir var nætur í djúpri hugleiðslu undir trénu, rifjaði upp fyrri endurfæðingar sínar, öðlaðist „ofurmannlegt guðlegt auga“ (hæfileikann til að sjá fráfall og endurfæðingu vera) og átta sig á hinum fjórum göfugu sannindum. Í hans eigin skráðu orðum: „Fáfræði var eytt, þekking spratt upp. Myrkrinu var eytt, ljósið reis upp.“[5]
Þannig öðlaðist hann uppljómun, eða vakningu, að nóttu til á fullu tungli maímánaðar, um árið 528 f.Kr. Tilveru hans var umbreytt og hann varð Búddha.
Atburðurinn vakti heimsathygli. Allir skapaðir hlutir fylltu morgunloftið með fögnuði sínum og jörðin var furðu slegin og skalf á sex vegu. Tíu þúsund vetrarbrautir skulfu af lotningu þegar lótusar blómstruðu á hverju tré og breyttu öllum alheiminum í „blómvönd sem þyrlaðist um loftið.“[6]
Í samtals fjörutíu og níu daga var hann djúpt snortinn, eftir það beindi hann aftur athygli sinni að heiminum. Hann fann Mara bíða hans með sína síðustu freistingu: „Hvernig er hægt að þýða upplifun þína í orð? Snúðu þér aftur í nirvana. Ekki reyna að koma skilaboðum þínum til heimsins, því enginn mun skilja þau. Njóttu sælunnar!“ En Búddha svaraði: „Einhverjir munu skilja,“ og Mara hvarf úr lífi hans að eilífu.
Kenningar

Þegar hann íhugaði hverjum hann ætti að kenna fyrst, ákvað hann að snúa aftur til meinlætamannanna fimm sem höfðu yfirgefið hann. Hann hóf ferðalag yfir hundrað og sextíu kólómetra til Benares og flutti gömlu félögum sínum fyrstu predikun sína, þekkt sem Dhammacakkappavattana-sutta, eða „Hjól sannleikans gangræst."
Í lok prédikunarinnar, þar sem hann afhjúpaði stærstu ppgötvun leitar sinnar — hin fjögur göfugu sannindi, áttföldu leiðina og milliveginn — tók hann við munkunum fimm sem fyrstu félögum reglu sinnar. Kondañña var fyrstur til að grípa kenninguna.
Í fjörutíu og fimm ár gekk Gátama um rykuga vegi Indlands og boðaði Dhamma (alheimskenninguna), sem leiddi til stofnunar búddhasiðar. Hann stofnaði sangha (samfélagið) sem óx fljótlega upp í hóp tólf hundruð trúmanna, að lokum með allri fjölskyldu hans — föður, frænku, eiginkonu og syni. Þegar fólkið spurði hann um hver hann væri, svaraði hann: „Ég er vakandi“ – þess vegna Búddha, sem merkir „upplýstur“ eða „vaknaður“.
Fráfall
Á áttræðisaldri veiktist Gátama alvarlega og dó næstum því, en lífgaði sjálfan sig við og hélt að það væri ekki rétt að deyja án þess að undirbúa lærisveina sína. Af einskærri staðfestu náði hann sér aftur og gaf Ananda, frænda sínum og nánum lærisveinum, fyrirmæli um að reglan ætti að lifa á því að gera sig að eylandi – með því að verða þeirra eigið athvarf og gera Dhamma að eylandi sínu, athvarfi að eilífu.
Eftir að hafa tilkynnt að hann myndi deyja eftir þrjá mánuði ferðaðist hann um nokkur þorp og dvaldi síðan hjá Kúnda, gullsmiðnum, einum af dyggum fylgjendum sínum. Samkvæmt almennri viðurkenndri hefð bauð Kúnda Gátama að neyta sukara-maddava — réttar sem hann hafði útbúið óafvitandi með eitruðum sveppum. Eftir máltíðina veiktist Gátama alvarlega, en bar sársaukann án þess að kvarta.
Eina umhugsunarefni hans var að hugga Kúnda, sem gæti fundið fyrir ábyrgð á dauða hans. Og þannig bað hann, af samúð, Ananda, um að segja Kúnda að af öllum máltíðum sem hann hafði borðað hafi aðeins tvær staðið upp úr sem sérstakar blessanir — önnur var máltíðin sem Sújata bar fram fyrir uppljómun hans og hin var maturinn frá Kúnda sem opnaði hliðin til umskipta (fráfalls) hans.
Hann lést á fullu tungli í maí, um 483 f.Kr., eftir að hafa aftur ráðlagt Ananda að Dhamma— Sannleikurinn — yrði að vera húsbóndi hans og minna munkana á hverfulleika allra skilyrtra hluta.
Arfleifð
Eftir fráfall Gátama byrjaði búddhasiður að þróast í tvær megin áttir, sem leiddi til stofnunar Hinayana ("litla farið", litli vagninn eða hinn litli farkostur") og Mahayana („farið mikla“, „stóri vagninn“ eða „hin mikli farkostur“) búddhaskólanna, sem margir fleiri undirhópar þróuðust úr.
Fylgjendur Hinayana-skólans telja kenningar þeirra tákna upprunalegu búddhistakenninguna sem Gátama kenndi og vísa því til leiðar þeirra sem þeravada, eða „Leið öldunganna“.
Hin hefðbundna þeravada sýn miðast við klausturlíf og leggur áherslu á nauðsyn fórnfýsi og einstaklingsuppljómunar til að hjálpa öðrum. Markmið þeirra er að verða arhat — fullkominn lærisveinn — og komast inn í nirvana.
Mahayana-sinnarnir, sem trúa því að strangtrúnaður Þeravada-sinna víki frá hinum sanna anda Búddha, einbeita sér meira að því að líkja eftir lífi Búddha, leggja áherslu á góð-verk og meðlíðan í garð annarra í því ferli að öðlast uppljómun. Þheravada-sinnar fullyrða hins vegar að Mahayana-sinnar hafi mengað hina hreina straum kenninga Gátama með því að innlima frjálslyndari kenningar og túlkanir.
Mahayana-sinnar telja skólann sinn „stóra farartækið“ þar sem honum er meira umhugað um leikmanninn. Hugsjón þeirra er að verða bódhisattva — sá sem kemst í nirvana en snýr aftur sjálfviljugur til heimsins til að aðstoða aðra við að ná sama markmiði.
Starf Gátama í samtímanum
Gátama Búddha var fyrst innvígður þjónn Sanat Kúmara og þess vegna sá sem valinn var til að taka við af honum í embætti drottins heimsins. Þann 1. janúar 1956 setti Sanat Kúmara möttul sinn á drottin Gátama, þar sem hinn stórkostlegi chela-nemi hins mikla Gúrú-meistara varð einnig yfirstjórnandi Shamballa.
Gátama Búddha gegnir í dag embætti drottins heimsins (vísað til sem „Guð jarðar“ í Opinberunarbókinni 11:4). Á innri stigum heldur hann uppi þrígreindum loga lífsins, guðlega neistanum, fyrir öll börn Guðs á jörðu.
Í sambandi við þá miklu þjónustu sem drottinn Gátama veitir öllu lífi í embætti sínu sem drottinn heimsins, sagði Maitreya 1. janúar, 1986:
Drottinn heimsins heldur uppi hinum þrígreinda loga í þróun jarðarinnar með híalín-ljósi sem nær frá hjarta hans. Karma einstaklingsins er því hliðrað þar sem svo mikið myrkur umlykur hjartað að andlegu slagæðarnar eða kristalstrengurinn hafa rofnað.
Samanburðurinn á þessu sést þegar slagæðar í líkamanum stíflast svo af úrgangsefnum að blóðflæðissvæðið minnkar verulega þannig að vanbúið hjartað getur ekki lengur viðhaldið lífinu. Þetta er sambærilegt við það sem hefur gerst á geðræna sviðinu.
Það varð til að Sanat Kúmara kom til jarðar til að viðhalda loga lífsins. Og svo heldur Gátama Búddha þessum þrígreinda loga við í Shamballa, og hann er hluti af hverju lifandi hjarta. Þess vegna, þegar lærisveinninn fer inn á andlegu brautina, skilur hann að markmið hennar er að ná þeim áfanga að þrígreindi loginn verði nógu þroskaður í hjarta lærisveinsins hér neðra til að hann sé sannarlega, með eða án híalíns-þráðsins frá hjarta Gátama Búddha, fær um að viðhalda lífi og sál og vitund á vígslubrautinni.
Ástvinir, þetta skref í sjálfu sér er afrek sem fáir á þessari plánetu hafa náð. Þið hafið ekki hugmynd um hvernig ykkur myndi líða, vera eða hegða ykkur ef Gátama Búddha myndi draga aftur til sín þennan stuðning við ykkar hinn uppsafnaða kraft síns eigin hjartsláttar og þrígreinda loga. Flestir, sérstaklega ungt fólk, gefa ekki gaum að því hver er uppspretta lífsins sem þeir upplifa í gnótt og gleði.
Um þessa gjöf sagði Gátama sjálfur 31. desember, 1983:
Ég er mjög athugull. Ég fylgist með ykkur með snertingu loga míns í gegnum þráðinn sem ég viðheld við hinn þrígreinda loga hjarta ykkar — viðheld honum uns þið færist frá sálarseturstöðinni til hjarta hjartnanna, leynihólfs hjartans, uns þið eruð sjálf fær um að halda við þessum loga og bruna hans í þessari áttundarvídd.
Mundi einhver hér eftir að hafa tendrað sinn eigin þrígreinda loga við fæðingu? Hefur einhver hér munað eftir því að hafa gætt þessa elds eða haldið honum logandi? Hjartans vinir, meðtakið að kærleikur og hugrekki og heiður og óeigingirni stuðla svo sannarlega að viðgangi þessa loga. En æðri máttur og æðri uppspretta geymir þennan loga uns þið sjálf eruð eitt með þeim æðri mætti — ykkar eigin Krists-sjálfi.
Þess vegna fá allir stuð og örvun frá hjartaloga mínum. Og þegar það ljós fer í gegnum mig frá guðdóminum, þá skynja ég margt um ykkur og daglegt líf ykkar sem þið gætuð hugsað ykkur að væri ekki frásagnarvert eða eftirtektarvert fyrir Drottin heimsins sem hlýtur að vera önnum kafinn.
Jæja, ég er það! En ég er aldrei of upptekinn til að taka eftir þeim þáttum andlegu vegferðarinnar sem foreldrar og fjölskyldur og samfélög og skólastofur lífsins alls staðar standa fyrir. Því að ég geri það að skyldu minni að sjá til þess að einhver þáttur vígsluleiðarinnar færist til hjarta Jesú og Maitreya, sé hluti af lífi hvers barns í vexti.
Athvörf
► Aðalgrein: Shamballa
► Aðalgrein: Vestur-shamballa
Gátama Búddha er bakhjarl Summit háskólans og yfirstjórnandi Shamballa, ljósvakaathvarf Drottins heimsins er staðsett uppi yfir Góbí eyðimörkinni.
Árið 1981 stofnaði Gátama framlengingu á þessu athvarfi, sem kallast Vestur-Shamballa, í ljósvakaáttundunni uppi yfir Hjarta innri athvarfsins á Royal Teton setrinu.
Grunntónn Gátama Búddha er „Tunglsljós og rósir“. „Óðurinn til gleðinnar“ úr níundu sinfóníu Beethovens gefur okkur einnig beina samstillingu við Drottin heimsins.
Sjá einnig
Heimildir
Pearls of Wisdom, 26. bindi, nr. 4, 23. janúar, 1983.
Pearls of Wisdom, 32. bindi, nr. 30, 23. júlí, 1989.
Mark L. Prophet and Elizabeth Clare Prophet, The Masters and Their Retreats, sjá “Gautama Buddha”.
Elizabeth Clare Prophet, Inner Perspectives.
Wikipedia. Búddismi https://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%BAddismi
- ↑ Helena Roerich, Foundations of Buddhism (New York: Agni Yoga Society, 1971), bls. 7.
- ↑ Encyclopaedia Britannica, 15. útgáfa, sjá „Buddha“.
- ↑ Edwin Arnold, Ljós Asíu (London: Kegan Paul, Trench, Trubner & Co., 1930), bls. 96.
- ↑ með „jarð-skjálfandi múdru“ — vinstri hönd í kjöltunni, hægri hönd vísaði niður, snerti jörðina.
- ↑ Edward J. Thomas, The Life of Buddha as Legend and History (New York: Alfred A. Knopf, 1927), bls. 66-68, vitnað í Clarence H. Hamilton, ritstj., Buddhism: A Religion of Infinite Compassion (New York: The Liberal Arts Press, 1952), bls. 22–23.
- ↑ Huston Smith, The Religions of Man (New York: Harper & Row, Harper Colofon Books, 1958), bls. 84.